11.1.2008 | 22:07
Er sparsemi og nýtni hallærisleg?
Ég geri mér grein fyrir því að ég er nýtin og þó nokkuð sparsöm. Eftir að ég skrifaði pistil um gamla bílinn minn 10. jan. sl. - Dulræn tengsl? - heitir hann, fór ég að spá í ýmislegt varðandi náttúruvernd og fleira. Ég fór að spá í hvað margir eru alltaf á nýjum bílum og tíma ekki að eyða peningum í viðgerðir á bílunum sínum þegar þeir bila, heldur losa sig við þá, jafnvel henda þeim og fá sér nýja og oft og iðulega á lánum.
Fólk er að borga 40-70 þús. á mánuði í afborganir af nýjum bílum og margir jafnvel mun meira. Samt tímir fólk ekki að borga 50 þús. króna viðgerð einstaka sinnum á eldri bíl og gerir eldri bíla verðlausa og vanmetna. Síðan er í nýbílahópum talsvert af fólki sem telur sig náttúruverndarsinna, en hefur þrátt fyrir það stuðlað að vannýtingu góðra hluta, sem hafa nú hlaðið sig í hauga af rusli og spilliefnum sem gerir náttúrunni engan greiða.
Ég sem passa mig vel á því að vera ekki yfirlýst eitt eða neitt og er alls ekki yfirlýstur náttúruverndarsinni, geri þó ýmislegt til að auka ekki á ruslið í náttúrunni og ber virðingu fyrir því verki sem aðrir hafa lagt á sig að framkvæma og skapa. Víða í heiminum eiga engir bíla og myndu vera þakklátir fyrir "gömlu" bílana sem við hendum í tonnatali hér á haugana af því við tímum ekki að borga fyrir viðgerðir.
Svo er flottræfilshátturinn að drepa okkur, en sá háttur er byggður á vanmáttarkennd fyrst og fremst .
Ég hendi heldur aldrei fötum. Ég gef föt sem við erum hætt að nota. Gamlir bolir sem eru orðnir slappir og snjáðir og ekki hæfir til gjafa, ríf ég samviskusamlega niður í hæfilega stóra búta fyrir tuskur, sem ég nota til að þrífa bílinn og baðherbergið og svo hendi ég þeim. Þetta geri ég líka við handklæði sem eru farin að vera lúin.
Ég nota umhverfisvænar sápur.
Ég nota lítið þvottaefni og mýkingarefni þegar ég þvæ.
Ég þurrka af með trefjaklútum og engri sápu.
Ég fer með allar dósir og flöskur í endurvinnslu.
Ég fer með ýmislegt dót á Sorpu í endurvinnslu sem á ekki heima í venjulegu sorpi.
Ég kaupi aldrei snyrtivörur nema ég þurfi á þeim að halda.
Ég hendi aldrei rusli á víðavangi og ekki synir mínir heldur.
Ég vil ekki lifandi jólatré.
Ég er ekkert sérlega hrifin af afskornum blómum.
Ég set öll batterí sem eru búin í sérstaka dós og læt svo farga þeim þegar dósin er full.
Það fer í taugarnar á mér allt þetta pappírs og blaðarusl sem kemur í póstkassann en ég reyni að koma því í gám fyrir endurvinnslu.
Ég endurnýti alla fallegu gjafapokana sem maður fær stundum utanum gjafir. Það hefur komið fyrir að ég hef gefið gjöf til einstaklings í sama pokanum og gjöfin frá honum til mín var í
Ég tek oft með mér taupoka þegar ég er að kaupa inn.
Ég kaupi frekar vandað og sterkt en lélegt þótt það sé ódýrara.
Ég nota mikið lífrænar vörur.
Ég kaupi sjaldan kex og kökur, en baka reglulegar pönnukökur og þá úr spelti og eða heilhveiti.
Ég prjóna og hekla og gef hluta af afrakstrinum í gjafir en meirihlutann sel ég dýrum dómi , enda handverk list og handverkið mín hönnun.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alveg 365% of vinstri verra grænt fyrir mig, eiginlega.
Þrátt fyrir að ég geri flest af því sama.
Nema ég hekla ekki, þó ég prjóni dáldið, hef keypt nýja bíla, en konan vill eldri..... (Klassík í því, náttla).
Nema að ég hakka í mig ólífrænt grænmeti hvar sem að ég gæti nú tönnum í það sökkt, enda er ólífrænt ræktað grænmeti eitthvað kraftaverk sem að ég & minn Guð höfum nú aldrei náð að nálgast, enda báðir tiltrúaðir á mátt ljóstillífunar, sem að er einhver grunnur lífríkisins.
Um restina erum við vinkonurnar flensusóttar, tiltölulega sammála um.
Steingrímur Helgason, 11.1.2008 kl. 22:15
Maður hreinlega skammast sín fyrir slóðaskapinn í samanburði við þig - fást ekki einhvers konar verðlaun fyrir svona dugnað? Umhverfishetja aldarinnar eða eitthvað?
Brynjólfur Þorvarðsson, 11.1.2008 kl. 23:16
Við erum líkar um margt, ætla nú ekki að telja það upp, það yrði of lang komment, en virðing við allt lifandi sem dautt er góður útgangspunktur. Nýta allt sem hægt er að nýta og bera virðingu fyrir jörðinni sem við búum á.
Ásdís Sigurðardóttir, 11.1.2008 kl. 23:16
Þetta er alveg mátulega fínt hjá þér og gott betur.
Ég geri eitt og annað af þessu - reyni að vera ekki umhverfissóði.
Hins vegar eru svo margar mótsagnir í þessu alla jafna.
Ég er á "öldruðum" gæðabíl - enn þá. En hef verið á nýjum og yngri en þessum. Þetta er líka hákur á bensín en það er líka sjarminn við hann - hann veit hvenær ég vil taka af stað...
En flöskur og dósir í endurvinnsllu - hugurinn sem gildir, er það ekki.
Fyrst hægt var að breyta sjómönnum í græningja á 5 árum ætti með réttum aðferðum að nást árangur hér.
Hver sá utanvegaakstur í skaupinu?
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 12.1.2008 kl. 11:57
Eins og ég sagði áður: Gamlir bílar þurfa ekki að vera dýrir. Ef maður á gamlan skuldlausan bíl og þarf að láta gera við hann fyrir nokkra tugi þús. Hversu lengi þarf hann að duga til að það borgi sig betur en kaupa nýjan á fullum lánum? Ég hef oft staðið frammi fyrir þessu reikningsdæmi og yfirleitt valið skrjóðinn og viðgerðina. Tel að slíkir bílar mali gull.
Hvað varðar umhverfisverndina finnst mér um að gera að vera meðvitaður á öllum sviðum og allt sem þú telur upp er góðra gjalda vert. Betur má ef duga skal og svo sannarlega getum við öll gert betur. Verst er að við viljum ekki láta hafa vit fyrir okkur eða auka gjaldtöku á það sem er umhverfinu óvænt, dettur í hug innkaupaplastpoka, maður fer í 3 búðir og kemur heim með plastpoka úr þeim öllum.
Það sem er víst alóvænast er að fljúga...........púff. Þar er ég sóði, búin að ferðast alltof mikið seinustu mánuði!
Kristjana Bjarnadóttir, 12.1.2008 kl. 12:33
Takk fyrir innlitið og skrifin þið öll.
Steingrímur: Græna grænmetið er víst mjög hollt og við erum dugleg að borða það hérna. Lífrænt grænmeti er miklu bragðbetra ef út í það er farið og svo er það laust við skordýraeitur. Annars er jarðvegurinn á Íslandi mjög góður
Brynjólfur: Ég er engin hetja í umhverfisvernd en sumt finnst mér bara skynsamlegt.
Ásdís: Sammála þér og kveðja í kotið.
Haukur: Ég sagði aldrei að ég væri yfirlýstur náttúruverndarsinni en sumt er bara augljóst. Ég er líka að tala um sparsemi og nýtni. Varðandi jólatrén, þá finnst mér og okkur ekki nauðsyn að hafa "lifandi jólatré" þegar það deyr síðan vegna þess að búið er að höggva það. Ég kenndi sonum mínum að bera virðingu fyrir gróðri, ekkert síður en fyrir mönnum og dýrum. Það varð til þess að þeir vildu aldrei lifandi jólatré
Varðandi dósir og plastflöskur, þá er m.a. búnar til flíspeysur úr endurunnum plastflöskum. Endurvinnsla væri ekki til staðar ef hún borgaði sig ekki á einhvern hátt. Endurvinnsla á pappír er sögð marg borga sig. Minnkar skóeyðingu og vatnsnotkun, en þær upplýsingar koma frá endurvinnslufyrirtækjum. Það er óþarfi að henda öllu því sem hægt er að endurnýta
Varðandi lífrænar vörur, þá tel ég að ef sem flestir stunduðu lífræna ræktun, þá myndi umhverfið stórgræða á því og heilsa fólks almennt. Það var fyrir nokkrum árum að birt var margra ára viðamikil sænsk rannsókn um orsakir hvítblæðis í börnum og helsta orsökin var talin vera skordýraeitur í matvælum sem móðirin neytti á meðgöngu og að meinsemdir yrði til á fósturstigi. Það hefur fjölgað mikið krabbameinstilfellum í ungabörnum og því var þessi rannsókn gerð og það var fjallað um hana í fjölmiðlum hér en enginn rauk upp til handa og fóta og fór að berjast gegn skordýraeitri þ.e almenningur. En á endanum verður slík ræktun lögð af, það er ég viss um.
Þú ert ekkert leiðinlegur
Margrét St Hafsteinsdóttir, 12.1.2008 kl. 19:23
Skóeyðingu = Skógeyðingu
Margrét St Hafsteinsdóttir, 12.1.2008 kl. 19:25
oh nú langar mig í pönnuköku . kv
Georg Eiður Arnarson, 12.1.2008 kl. 20:05
Sparsemi er töff
skuldafen og flottræfilsháttur er ekki flott, sérstaklega þegar maður sér annað fólk renna á rassin í þeim efnum
Nú til dags eru vörur framleiddar "einnota". Framleiðendur hafa áttað sig á því í gegnum tíðina að það er mun gróðvænlegra að framleiða drasl á "góðu" verði til þess eins að neytendur þurfi að endurnýja eftir skamman tíma.
Sparnaður styrkir stoðir heimilisins, skuldir slá undan þér........
gfs (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 01:40
Takk fyrir heimsóknirnar.
Bragi: Já hugurinn gildir Mér finnst sjálfsagt en endurvinna sem mest, vegna þess að nóg er draslið
Man ekki eftir utanvegaakstri í skaupinu. Ef hann var, þá hef ég misst af því. Það var mikið spjallað þar sem ég var
Georg: Þú verður bara að koma í pönnsur einhvern tímann
gfs: Gott að sparsemi er töff Já það eru ansi margir að renna á rassinn vegna flottræfisháttar og komnir í skuldasúpu vegna þess. Sammála þínu innleggi.
Knús og kveðjur til allra.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 13.1.2008 kl. 01:59
Góðan dag Margrét og takk fyrir athugasemdir! .. Ég las einhvern tíma grein í einhverju virtu tímariti (vonandi úr endurnýtanlegum pappír) um breytinguna sem væri orðin á þjóðfélaginu. Endingartími hluta væri orðinn miklu styttri. Heimilistæki entust áður von úr viti og bílar voru úr þykku stáli. Nú værum við orðin Ikeaþjóðfélag og oft ódýrara að kaupa nýtt en láta gera við. Þegar ég byrjaði að búa - fyrir mörgum tunglum síðan - byrjaði ég með kassa með gömlu dóti frá ömmu. Nú er bara hægt að fara að kaupa ,,starter kit" fyrir 6.999.- í IKEA ...
Og hver stoppar t.d. í sokka í dag ? ... Held það séu ekki margir. Ég hef oft sagt að ég þurfi bíl til að koma mér á milli staða og hef aldrei verið kresin með það. Ég verð þó að viðurkenna að suma bíla er mun þægilegra að keyra en aðra.
Síminn minn er orðinn mjög ljótur og slitinn (útlitslega) og flestir sem ég hitti spyrja mig af hverju í ósköpunum ég fái mér ekki nýjan síma! Ég segist ætla að nota þennan þar til hann er hættur að virka.... hehe..
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.1.2008 kl. 08:01
Nýtni og sparnaður eru dyggðir. Oft er eini munurinn á fólki í skuldabasli, og fólki sem er vel statt, þessi eini hlutur. (Auðvitað spila fleiri þættir inn í)
Sindri Guðjónsson, 13.1.2008 kl. 16:23
Þegar ég var yngri var talað um sparsemi og nýtni sem hinar mestu dyggðir og þótti nú gott að eiga peninga í banka svo kom óðaverðbólgan og allt fór fjandans til eða bankans til, allir peningar eyddust upp áður en unnið var fyrir þeim og okkur var innrætt að eyða öllu hratt og vel, því annars yrði ekkert úr aurunum okkar.
ég held að það sitji ennþá svolitið í okkur af þessu tímabili og við erum ekki búin að átta okkur á því hvað það er auðvelt að spara.
Alltaf að leggja lágmark 10% af laununum þínum í banka í hverjum mánuði og viti menn, eftir smátíma áttu bara helling af peningum, hef gert þetta sjálf, svo ég veit að þetta virkar.
Einnig safna ég fernum og blöðum og batteríum og skila því í sorpu og gömlu fötin okkar fara í rauða krossinn, bara gott mál....
En ég bý í blokk og restin af mannskapnum er nú ekki að pæla mikið í þessu, þannig að hér eru alltaf allar tunnur fullar af rusli, sem hefði verið hægt að fara með í næsta gám hjá sorpu.
ég hef gert ítrekaðar tilraunir til þess að breyta þessu, en hef ekki fengið neinar undirtektir, afsakanirnar eru hins vegar nægar, enginn tími til að fara með þetta drasl út í gáminn, hef ekki pláss fyrir þetta í íbúðinni, nenni þessu bara ekki, og fleira og fleira, læt þetta því eiga sig og passa bara eigið drasl.
En ég safna fallegum gjafapokum yfir árið og svo þegar ég fer að dreifa jólagjöfunum, þá set ég þær í svona fallega poka og kem þeim á hvert heimili, virkilega fínt, skal ég segja ykkur..
En ég kaupi alltaf lifandi jólatré og geri það þar sem stærsti hluti ágóðans fer í skógrækt, svo ég laga samviskuna aðeins í leiðinni.
góðar stundir
Ingibjörg
Ingibjörg R Þengilsdóttir, 14.1.2008 kl. 10:56
Takk fyrir heimsóknirnar.
Jóhanna: Takk fyrir gott innlegg. Það stoppar enginn í sokka í dag held ég Sokkunum er bara hent þegar þeir fara að slitna. Ég er mjög oft berfætt, nema kannski yfir bláveturinn, svo ég nota ekki mikið sokka. Góð afsökun hjá mér?
Sindri: Fólki verður mismikið úr peningum það er alveg ábyggilegt. Ég þó líka á því að sumir fá allt of lítið til að lifa af, eins og láglaunafólk, öryrkjar og aldraðir.
Ingibjörg: Takk fyrir gott innlegg. Já það eru allt of margir sem nenna ekki að hafa fyrir því að endurvinna. En af hverju ertu ekki með opið fyrir athugasemdir á þinni síðu? Er búin að kíkja nokkrum sinnum og get ekki kommentað eða sagt hæ
Gunnar Þór: Ég lít á þetta sem hrós Takk.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 14.1.2008 kl. 21:26
Frábært að hugsa um umhverfi og njóta alls þess góða.
Ester Sveinbjarnardóttir, 15.1.2008 kl. 16:28
Sæl......... Vildi bara kvitta fyrir innlitið,of léleg til að kommenta á kvitt :) kíkiji oft á þína síðu sem vekur mig svo SANNARLEGA til umhugsunar um margt,,,,,,,,,,,,,, Bestu kveðjur
Erna Friðriksdóttir, 15.1.2008 kl. 17:56
Bestu þakkir Ester og Erna
Margrét St Hafsteinsdóttir, 15.1.2008 kl. 21:41
Skemmtilegar hugleiðingar og þarfar. Ég hef nú átt VW Passat model 98 í tæp 3 ár og er hann keyrður nú um 170 þúsund km. Til að ná þessu varð ég að skipta um tímareim nr 2 í vor, endurnýja gírkassapakkningu, skipta um bremsudiska og klossa, pústkerfið og sitthvað fleira uppá 150 þús í sumar. Ég hefði fengið 200 þús kr fyrir hann uppí nýjan og varla mikið meira en 300 þús í beinni sölu. Maður einn benti mér á að það væri miklu meira vit í því að kaupa nýjan bíl á afborgunum heldur en að gera við þann gamla. Bifvélavirki sagði mér hins vegar að stykkið væri mjög gott eintak og heilmikið eftir af honum. Vélin entist von úr viti með réttu viðhaldi. Ég er því að reyna að nýta bílinn áfram og setja ekki stórar upphæðir í bílakaup nýs bíls sem rýrnar að verðmæti hraðar en verðbréfin undanfarið. Þegar ég var unglingur var mér sagt að bíll væri góð fjárfesting - hið öfugu reyndist satt.
Takk fyrir holl ráð, gott fordæmi og að láta þér annt um umhverfið.
Svanur Sigurbjörnsson, 17.1.2008 kl. 00:35
Farðu nú að blogga, sakna bloggana þinna. Bestu kveðjur
Erna Friðriksdóttir, 17.1.2008 kl. 17:30
Sael Margret.
Eg verd ad taka tig til fyrirmyndar. Hvad vardar umhverfid okkar.
Jens Sigurjónsson, 19.1.2008 kl. 16:48
Takk öll. Netið datt út hjá mér, vegna einhverrar bilunar og vonandi kemur andinn yfir mig fjótlega svo ég geti skrifað eitthvað og þá sérstaklega fyrir Ernu sem saknar skrifanna minna
Svanur: Gott að fleiri eru á gömlum bíl en ég Minn er árg. 97 og keyrður nærri 160 þús. km. og ég er búin að skipta um og endurnýja ýmislegt í honum. Það var einmitt bifvélavirki sem sagði við mig að ég ætti ekki að vera að spá í nýjan bíl, og sagði að sér þætti slæmt hvað fólk nýtti bílana illa. Minn væri gott eintak þótt það þyrfti að gera við hann annað slagið.
Nei bíll er ekki góð fjárfesting, það er ábyggilegt.
Erna: Ég er alveg að fara að blogga kveðjur til þín líka.
Jens: Alltaf gott að hugsa um umhverfið og gera sitt þótt lítið sé til að bæta það. Safnast þegar saman kemur.
Bestu kveðjur til allra.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 19.1.2008 kl. 17:03
Góður pistill! Eftir að ég flutti hingað til Svíþjóðar er ég farin að hugsa miklu meira um þessa hluti, flokka allt rusl og er hætt að nota kemísk hreingerningarefni enda sel ég umhverfisvænar hreinlætisvörur. Í tengslum við það hef ég t.d. lært að Svíar sturta niður a.m.k. 50 stórum flutningabílum af klósetthreinsi á ári, en 15% af honum brotna aldrei niður í náttúrunni. Hér hugsar fólk miklu meira um þetta en heima og gámastöðvar eru alls staðar í seilingarfjarlægð. Hér þykir líka ekki fínt að nota bílinn ef hægt er að hjóla eða ganga, en veðráttan býður líka miklu meira upp á það en heima á blessaða, vindbarða skerinu okkar. Ég hef líka rekist hér á lífræn handklæði og barnaföt! Sannleikurinn er sá að við höfum ekki hugmynd um hvaða eiturefni eru notuð við framleiðslu á vefnaðarvöru og hvaða áhrif þau hafa á umhverfið. Svo það er að mörgu að huga og ekki seinna vænna.
Aðalheiður Haraldsdóttir, 22.1.2008 kl. 08:54
P.s. Ég var líka að velta því fyrir mér um daginn að heima er mjög neikvætt viðhorf gagnvart umhverfisverndarsinnum en hér er það jákvætt. Auðvitað eru til öfgar í því eins og öðru en er ekki rétt að fara að hugsa betur um okkar eina samastað sem er Jörðin?
Aðalheiður Haraldsdóttir, 22.1.2008 kl. 08:57
Takk fyrir gott innlegg Aðalheiður. Já við erum ennþá aðeins á skjön við umhverfismálin hérna en þetta er að breytast smátt og smátt.
Kveðja til Svíþjóðar.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.1.2008 kl. 15:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.