Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
12.1.2009 | 18:55
Bakreikningur eftir jarðarför
Ég var að tala við konu í fjölskyldu minni ekki alls fyrir löngu um bruðlið hjá Þjóðkirkjunni. Það fór ekkert á milli mála hver afstaða mín var í því samtali og að ég aðhylltist aðskilnað ríkis og kirkju.
- Já þú segir nokkuð sagði konan. Ég hef einmitt verið að velta þessu svolítið fyrir mér, sérstaklega eftir að tengdamamma lést. Við fórum í viðtal við prestinn sem ætlaði að jarðsyngja hana til að ræða við hann um athöfnina. Hann bauð okkur að flytja sjálfur fallegt verk á selló í athöfninni sem okkur fannst mjög vinsamlegt af honum að bjóða okkur og við þáðum það. Athöfnin var falleg og presturinn flutti sitt sellóverk mjög vel og tók það einhverjar mínútur.
Nokkrum dögum eftir jarðarförina fengum við svo reikning frá prestinum upp á 25.000,- kr. fyrir flutninginn
Síðan bætti hún við eftir að ég var búin að sjokkerast. - Já svo þarf ég að borga yfir 4.000 kr. fyrir fermingarfræðslu yngsta barnsins sem fermist í vor og síðan 10.000 fyrir ferminguna sjálfa. Í hvað fara allir þessir skattpeningar?
19.1.2008 | 20:27
Hver er þessi Litli Maður?
Hver er hann þessi Litli Maður sem mörgum stjórnmálamönnum, auðmönnum og valdhöfum er svona hugleikinn? Hver er hann þessi stubbur sem er hossað svo djarflega í fangi þeirra sem sækjast eftir auði og völdum og telja sig þess umkomin að ákveða hver skuli uppskera og hver ekki?
Þegar kosningar eru í nánd er Litli Maðurinn dreginn fram í dagsljósið og skellt í fangið á framboðsfólki sem rífst um það hvert þeirra ætlar að gera mest fyrir hann. Honum er hossað og klappað og sýnd vorkunnsemi og allir segjast vita um aðstæður hans og hvað hann má þola af óréttlæti og raunum fyrir það eitt að vera svona lítill og máttvana. Hann er jafnvel stundum tuskaður til og sagt að hann reyni ekki sjálfur nógu mikið til að bjarga sér, en litli bærinn hans er umlukinn gaddavírsgirðingum og háum illklífanlegum múrum sem reynist erfitt að komast yfir. Þegar honum tekst að klífa yfir múrinn bíða hans strengjabrúðuverðir sem elta hann eins og hundar, leita í vösum hans og skoða farangurinn hans til að vera vissir um að ekkert er þar yfir þeim mörkum sem kúgarar hans hafa sett. Þeir vilja eiga hann að þegar í harðbakka slær og þurfa að nota hann í þeim tilgangi að slá á sektarkennd sína út af græðgi vegna auðæfa sinna og valda og blindu trú á að þeir verðskuldi svo miklu meiri lífsgæði en aðrir og hafi jafnvel verið sérútvaldir af almættinu til að ráðskast með aðra.
Aðstæður Litla Mannsins er skapaðar og mótaðar af vilja þessa fólks. Um hans málefni hafa verið búnar til stofnanir og félög sem eru settar skorður og búin til lög og lög þar ofaná og svo reglur og reglugerðir, svo að stengjabrúðunum sem starfa innan þessa ramma fyrir gráðuga fólkið, sé gert það ómögulegt að skilja nokkuð í þessum frumskógi reglna og reglugerða sem hefur myndast, hvað þá að komast í gegnum hann. Strengjabrúðurnar eru margar líka bara fegnar á meðan einhver togar í strengina þeirra og stýrir þeim áfram og hafa ekki mikla burði til að breyta á meðan þær eru aðeins strengjabrúður. Margar strengjabrúður fá líka umbun fyrir að fara að vilja gráðuga fólksins og er haldið góðum svo þær séu ekki að stíga nein sjálfstæð skref og losa sig við strengina. Það eru margar strengjabrúður hræddar við að lenda innan múranna í kringum bæ Litla Mannsins.
Í bæ Litla Mannsins er einmanalegt. Hann er oft veikur og þreyttur. Húsakynnin hans eru léleg og hann er slitinn vegna stanslausra tilrauna til að klífa múrinn og reyna að sækja sér betri vistir og aðbúnað fyrir utan og láta í sér heyra. Það er þó erfitt fyrir hann að fá áhreyrn þegar hann er keflaður þegar út kemur og að koma með nokkuð til baka þegar leitað er á honum og allt hirt sem mögulegt er að hann geti nýtt sér til að öðlast meiri kraft og getu til að brjóta niður múrana sem umlykja bæinn hans. Hann fær engin tækifæri. Hann er dæmdur til vistar innan múranna og dæmdur til að búa þar um aldur og æfi á meðan gráðuga fólkið ræður og blekkingin grasserar.
En í raun er Litli Maðurinn hetja. Hann reynir á sínum veikbyggðu, stuttu fótum að klífa múrinn aftur og aftur og leita að réttlæti. Hann er með ríka réttlætiskennd. Hann vill ekki láta hossa sér. Hann hefur þolað mikið og verið kúgaður og sagðir um hann ljótir hlutir sem eru ósannir. Litli maðurinn býr yfir djúpstæðri visku og þekkingu. Hann er hjartahreinn og blíðlyndur. Gráðuga fólkið er í raun hrætt við hann þótt það hossi honum og klappi annað slagið. Það er skíthrætt við það vald sem hann fengi ef hann tæki til máls og múrarnir brystu og strengjabrúðurnar hlustuðu á hann þegar hann færði rök fyrir sínu máli og leyfði visku sinni að streyma óhindrað. Þau vita nefnilega að hann veit sínu viti og að hann sér í gegnum spillinguna og veit að gráðuga fólkið getur ekki horfst í augu við hann. Það verður flóttalegt ef hann reynir að ná augnsambandi.
Tími Litla Mannsins mun koma. Hans tími kemur þegar hver og einn mun horfast í augu við sjálfan sig án þess að líta undan. Litli Maðurinn er okkar innri kjarni. Hann er sannleikurinn.
Trúmál og siðferði | Breytt 2.3.2015 kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)