19.1.2008 | 20:27
Hver er þessi Litli Maður?
Hver er hann þessi Litli Maður sem mörgum stjórnmálamönnum, auðmönnum og valdhöfum er svona hugleikinn? Hver er hann þessi stubbur sem er hossað svo djarflega í fangi þeirra sem sækjast eftir auði og völdum og telja sig þess umkomin að ákveða hver skuli uppskera og hver ekki?
Þegar kosningar eru í nánd er Litli Maðurinn dreginn fram í dagsljósið og skellt í fangið á framboðsfólki sem rífst um það hvert þeirra ætlar að gera mest fyrir hann. Honum er hossað og klappað og sýnd vorkunnsemi og allir segjast vita um aðstæður hans og hvað hann má þola af óréttlæti og raunum fyrir það eitt að vera svona lítill og máttvana. Hann er jafnvel stundum tuskaður til og sagt að hann reyni ekki sjálfur nógu mikið til að bjarga sér, en litli bærinn hans er umlukinn gaddavírsgirðingum og háum illklífanlegum múrum sem reynist erfitt að komast yfir. Þegar honum tekst að klífa yfir múrinn bíða hans strengjabrúðuverðir sem elta hann eins og hundar, leita í vösum hans og skoða farangurinn hans til að vera vissir um að ekkert er þar yfir þeim mörkum sem kúgarar hans hafa sett. Þeir vilja eiga hann að þegar í harðbakka slær og þurfa að nota hann í þeim tilgangi að slá á sektarkennd sína út af græðgi vegna auðæfa sinna og valda og blindu trú á að þeir verðskuldi svo miklu meiri lífsgæði en aðrir og hafi jafnvel verið sérútvaldir af almættinu til að ráðskast með aðra.
Aðstæður Litla Mannsins er skapaðar og mótaðar af vilja þessa fólks. Um hans málefni hafa verið búnar til stofnanir og félög sem eru settar skorður og búin til lög og lög þar ofaná og svo reglur og reglugerðir, svo að stengjabrúðunum sem starfa innan þessa ramma fyrir gráðuga fólkið, sé gert það ómögulegt að skilja nokkuð í þessum frumskógi reglna og reglugerða sem hefur myndast, hvað þá að komast í gegnum hann. Strengjabrúðurnar eru margar líka bara fegnar á meðan einhver togar í strengina þeirra og stýrir þeim áfram og hafa ekki mikla burði til að breyta á meðan þær eru aðeins strengjabrúður. Margar strengjabrúður fá líka umbun fyrir að fara að vilja gráðuga fólksins og er haldið góðum svo þær séu ekki að stíga nein sjálfstæð skref og losa sig við strengina. Það eru margar strengjabrúður hræddar við að lenda innan múranna í kringum bæ Litla Mannsins.
Í bæ Litla Mannsins er einmanalegt. Hann er oft veikur og þreyttur. Húsakynnin hans eru léleg og hann er slitinn vegna stanslausra tilrauna til að klífa múrinn og reyna að sækja sér betri vistir og aðbúnað fyrir utan og láta í sér heyra. Það er þó erfitt fyrir hann að fá áhreyrn þegar hann er keflaður þegar út kemur og að koma með nokkuð til baka þegar leitað er á honum og allt hirt sem mögulegt er að hann geti nýtt sér til að öðlast meiri kraft og getu til að brjóta niður múrana sem umlykja bæinn hans. Hann fær engin tækifæri. Hann er dæmdur til vistar innan múranna og dæmdur til að búa þar um aldur og æfi á meðan gráðuga fólkið ræður og blekkingin grasserar.
En í raun er Litli Maðurinn hetja. Hann reynir á sínum veikbyggðu, stuttu fótum að klífa múrinn aftur og aftur og leita að réttlæti. Hann er með ríka réttlætiskennd. Hann vill ekki láta hossa sér. Hann hefur þolað mikið og verið kúgaður og sagðir um hann ljótir hlutir sem eru ósannir. Litli maðurinn býr yfir djúpstæðri visku og þekkingu. Hann er hjartahreinn og blíðlyndur. Gráðuga fólkið er í raun hrætt við hann þótt það hossi honum og klappi annað slagið. Það er skíthrætt við það vald sem hann fengi ef hann tæki til máls og múrarnir brystu og strengjabrúðurnar hlustuðu á hann þegar hann færði rök fyrir sínu máli og leyfði visku sinni að streyma óhindrað. Þau vita nefnilega að hann veit sínu viti og að hann sér í gegnum spillinguna og veit að gráðuga fólkið getur ekki horfst í augu við hann. Það verður flóttalegt ef hann reynir að ná augnsambandi.
Tími Litla Mannsins mun koma. Hans tími kemur þegar hver og einn mun horfast í augu við sjálfan sig án þess að líta undan. Litli Maðurinn er okkar innri kjarni. Hann er sannleikurinn.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Breytt 2.3.2015 kl. 12:06 | Facebook
Athugasemdir
Lifi byltingin...
vcd
Bragi Þór Thoroddsen, 19.1.2008 kl. 20:46
Þetta er mjög góður og sannur pistill hjá þér Magga mín. Takk fyrir að skrifa svona vel um mig. Ég er "litli maðurinn" og líka "sá sem minna má sín" eða "öryrkinn og eldri borgarinn" eins og þessir frambjóðendur kalla okkur, allt eftir því í hvaða völd þeir eru að reyna að komast. Kannski við ættum að standa ÖLL upp á afturfæturna, klífa yfir múrinn og ná í það sem okkur ber. Þá yrðu nú margir hræddir. En til er ég.
Ásdís Sigurðardóttir, 19.1.2008 kl. 20:56
Já, ég er náttúrlega litli maðurinn hans Alberts samkvæmt þessari lýsingu þínni.
Bíð bara eins & önnur Jóhanna eftir því að minn tími muni koma.
Steingrímur Helgason, 19.1.2008 kl. 21:43
Já ég tek undir með Ásdísi, ég er greinilega þessi litli maður sem þú ert að tala um, takk fyrir að taka upp hanskan fyrir mig.
Ester Sveinbjarnardóttir, 19.1.2008 kl. 21:50
Hæ Magga mín:
Ég vildi kikja á sídunna hjá thér og sjá hvad thú varst ad skrifa og vá!!
Flott skrifad vid ættum ad vera fleiri sem tökum upp hanskann fyri litla manninum sem er vid sjálf takk fyri frábæra grein.
kvedja heidveig
Heidveig Ragnarsdottir (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 23:17
Þessi pistill er einfaldlega snilld.........
gfs (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 00:59
Takk fyrir innlitið og skrifin.
Bragi: Já lifi byltingin...........innri byltingin
Ásdís: Takk mín kæra. Við þurfum öll að hleypa litla manninum út.
Steingrímur: Við skulum hætta að bíða
Ester: Litli maðurinn býr í öllum. Ekkert að þakka.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 20.1.2008 kl. 11:52
Heiða: Gaman að þú skyldir kíkja við Takk fyrir hrósið og knús til þín elsku vinkona
gfs: Takk fyrir
Margrét St Hafsteinsdóttir, 20.1.2008 kl. 11:55
þessi pistill Magga, er hrein snild og svo algjör sannleikur Bestu kveðjur til þín
Erna Friðriksdóttir, 20.1.2008 kl. 11:59
Lítið verður stórt og stórt verður smátt. Tími litla mannsins mun koma.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 20.1.2008 kl. 17:28
Erna, Gunnar Þór og Helga Guðrún, takk fyrir innlitið og skrifin
Frábær mynd Helga Guðrún!
Margrét St Hafsteinsdóttir, 20.1.2008 kl. 17:39
Jamm. Frábær grein. Málsvari litla mannsins er svo lítill að ég hef ekki séð hann enn. Kannski er hann þarna á bakvið púltið á alþingi að reyna að pípa eitthvað, en enginn heyrir hann né sér. Kannski er það Ragnar Reykás? Hann ætti að bjóða sig fram.
Sjálfstæðisflokkurinn er hugsanlega ekki málið og sennilegast ekkert af hinum tækifærissinnunum, sem hafa ekki nokkurt agenda nema persónulega hagsmuni. Skorrdalinn bloggvinur minn setti saman þetta MYNDBAND þessu til áréttingar.
Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2008 kl. 19:44
Flottur pistill hjá þér Margrét mín. Veistu að litli maðurinn styrkist um leið og hann áttar sig á því að á 4 ára fresti hefur hann val, svo sem ekki algjört, en með því að kjósa alltaf aftur og aftur yfir sig harðstjórann af því að hann var kosin síðast, þá gerist ekki neitt. Hér þarf að sýna kjark til að breyta til, framsýni til að sýna þrælahöldurunum í tvo heimana, og snerpu til að grípa tækifærið. Þá mun hans tími koma.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.1.2008 kl. 19:45
Takk fyrir góðar kveðjur! Húrra fyrir "Litla manninum" ...
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 20.1.2008 kl. 21:43
Sael Margrèt.
Flottur pistill hja ter.
Jens Sigurjónsson, 20.1.2008 kl. 23:22
Stóri maðurinn væri ekkert án litla mannsins
DoctorE (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 10:36
Þakka öllum fyrir heimsóknirnar.
Jón Steinar: Verður ekki bara hver og einn að kannast við litla manninn í sjálfum sér og koma honum út? Kíkti á myndbandið og fannst það nokkuð skondið. Það eru alltof margir í pólitík og í valdastöðum að hygla sjálfum sér og sínum.
Ásthildur: Það þarf líka að koma litla manninum í gráðuga fólkinu út
Jóhanna: Já húrra fyrir litla manningum, megi hann fá að njóta sín
Jens: Sæll sjálfur og takk
DoctorE: Mikið til í því
Margrét St Hafsteinsdóttir, 21.1.2008 kl. 13:20
Frábær pistill! Ég tel mig nú ekki hafa neitt vit á stjórnmálum, nema hvað mér finnst stjórnmálamenn gera allt of lítið gagn og of mikið ógagn. Ég las einhvern tímann að þeir sem komast langt í stjórnunarstörfum og viðskiptum eigi mikið sameiginlegt með stórglæpamönnum hvað varðar siðferðisvitund. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en komst að þeirri niðurstöðu um daginn að flestir þeirra sem leggja stund á pólitík geri það vegna þess að þeir þrái völd en ekki vegna þess að þeim sé svo rosalega umhugsað um litla manninn! Við ættum að setja verkafólk, öryrkja og einstæðar mæður á þing. Það
Aðalheiður Haraldsdóttir, 22.1.2008 kl. 09:06
frh. ...er fólk sem kann að lifa af litlu, forgangsraða og hugsa fyrst um aðra og síðan um sjálft sig. En eins og áður sagði...ég hef ekkert vit á pólitík!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 22.1.2008 kl. 09:07
Aðalheiður: Takk fyrir gott innlegg og ég er sammála þínum skrifum. Þú hefur víst vit á stjórnmálum Eins og þú segir eru margir sem leggja í stjórnmálin í leit að valdi sem er auðvitað fáránlegt. Forgangsröðinin hjá slíku fólki er í takt við það.
Kveðjur.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 22.1.2008 kl. 15:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.