Færsluflokkur: Lífstíll
11.1.2008 | 22:07
Er sparsemi og nýtni hallærisleg?
Ég geri mér grein fyrir því að ég er nýtin og þó nokkuð sparsöm. Eftir að ég skrifaði pistil um gamla bílinn minn 10. jan. sl. - Dulræn tengsl? - heitir hann, fór ég að spá í ýmislegt varðandi náttúruvernd og fleira. Ég fór að spá í hvað margir eru alltaf á nýjum bílum og tíma ekki að eyða peningum í viðgerðir á bílunum sínum þegar þeir bila, heldur losa sig við þá, jafnvel henda þeim og fá sér nýja og oft og iðulega á lánum.
Fólk er að borga 40-70 þús. á mánuði í afborganir af nýjum bílum og margir jafnvel mun meira. Samt tímir fólk ekki að borga 50 þús. króna viðgerð einstaka sinnum á eldri bíl og gerir eldri bíla verðlausa og vanmetna. Síðan er í nýbílahópum talsvert af fólki sem telur sig náttúruverndarsinna, en hefur þrátt fyrir það stuðlað að vannýtingu góðra hluta, sem hafa nú hlaðið sig í hauga af rusli og spilliefnum sem gerir náttúrunni engan greiða.
Ég sem passa mig vel á því að vera ekki yfirlýst eitt eða neitt og er alls ekki yfirlýstur náttúruverndarsinni, geri þó ýmislegt til að auka ekki á ruslið í náttúrunni og ber virðingu fyrir því verki sem aðrir hafa lagt á sig að framkvæma og skapa. Víða í heiminum eiga engir bíla og myndu vera þakklátir fyrir "gömlu" bílana sem við hendum í tonnatali hér á haugana af því við tímum ekki að borga fyrir viðgerðir.
Svo er flottræfilshátturinn að drepa okkur, en sá háttur er byggður á vanmáttarkennd fyrst og fremst .
Ég hendi heldur aldrei fötum. Ég gef föt sem við erum hætt að nota. Gamlir bolir sem eru orðnir slappir og snjáðir og ekki hæfir til gjafa, ríf ég samviskusamlega niður í hæfilega stóra búta fyrir tuskur, sem ég nota til að þrífa bílinn og baðherbergið og svo hendi ég þeim. Þetta geri ég líka við handklæði sem eru farin að vera lúin.
Ég nota umhverfisvænar sápur.
Ég nota lítið þvottaefni og mýkingarefni þegar ég þvæ.
Ég þurrka af með trefjaklútum og engri sápu.
Ég fer með allar dósir og flöskur í endurvinnslu.
Ég fer með ýmislegt dót á Sorpu í endurvinnslu sem á ekki heima í venjulegu sorpi.
Ég kaupi aldrei snyrtivörur nema ég þurfi á þeim að halda.
Ég hendi aldrei rusli á víðavangi og ekki synir mínir heldur.
Ég vil ekki lifandi jólatré.
Ég er ekkert sérlega hrifin af afskornum blómum.
Ég set öll batterí sem eru búin í sérstaka dós og læt svo farga þeim þegar dósin er full.
Það fer í taugarnar á mér allt þetta pappírs og blaðarusl sem kemur í póstkassann en ég reyni að koma því í gám fyrir endurvinnslu.
Ég endurnýti alla fallegu gjafapokana sem maður fær stundum utanum gjafir. Það hefur komið fyrir að ég hef gefið gjöf til einstaklings í sama pokanum og gjöfin frá honum til mín var í
Ég tek oft með mér taupoka þegar ég er að kaupa inn.
Ég kaupi frekar vandað og sterkt en lélegt þótt það sé ódýrara.
Ég nota mikið lífrænar vörur.
Ég kaupi sjaldan kex og kökur, en baka reglulegar pönnukökur og þá úr spelti og eða heilhveiti.
Ég prjóna og hekla og gef hluta af afrakstrinum í gjafir en meirihlutann sel ég dýrum dómi , enda handverk list og handverkið mín hönnun.
16.10.2007 | 04:12
Ætli ég verði núna kölluð rasisti?
Ég fór á djammið síðasta laugardagskvöld
sem er kannski ekki í frásögur færandi
nema fyrir þá sök að ég fer ekki nema svona
einu sinni á ári
Mér finnst miklu skemmtilegra að vera heima,
borða góðan mat, dunda mér og prjóna!
Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég fer
hvað mikið er af fullu fólki á djamminu
Ég hitti þó skemmtilegt fólk
og ég og vinkona mín sem fór með mér
vorum talsvert að spjalla við frábær hjón
og sátum við borðið hjá þeim
Það kom maður að borðinu
og hlammaði sér á milli hjónanna
enda leist honum greinilega vel á konuna
sem er mjög myndarleg
Eiginmaðurinn segir eitthvað við manninn
sem ég heyrði ekki
en ég segi eitthvað á þá leið
að það sé óþarfi að maðurinn sé að troða sér á milli þeirra
Þá segir eiginmaðurinn:
Æ, það er allt í lagi. Þetta er bara pólverji!
Ég er enn að hlæja að þessu
og á trúlega að skammast mín fyrir það
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 04:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)