Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Börn eru ekki í tísku

Etsy myndir 2804Nei börn eru ekki í tísku enda fer þeim fækkandi eins og hverjum öðrum hlut sem hættir að vera í tísku. Málefni barna og ungmenna hafa ekki verið ofarlega á baugi undanfarin ár. Þau hafa algjörlega setið á hakanum í allri þessari óöld sem ríkt hefur um mörg málefni, sem hefur aukið á óhamingju margra.

Nú er svo komið að allt of margir telja að börn og ungmenni séu ofurseld klámheiminum og nú þurfi að kenna þeim að umgangast klámheiminn á réttan hátt. Ákveðnir hópar fara fram með miklum kulda í garð barna og telja að þau séu meira og minna öll kominn í klámheiminn og hafi aðgang að honum. Þetta fólk mærir mjög svo grófar bækur sem á að kenna þeim á þetta allt saman og telur að hugarheimur barnanna sé nú þegar orðið mengaður af klámi og þess vegna þurfi að fara þessa leið. Eins og það sé ekki hægt að bæta þann skaða sem orðið hefur á hugarheimi barna og ungmenna, heldur eigi bara að bæta í.

Það er hægt að aðstoða og hjálpa börnum í mótun með umhyggju og heilbrigðum aga. Börn eru mörg hver að kljást við ótrúleg vandamál, m.a. tengslavanda. Það er samt ekki flókið hvernig á að halda góðum tengslum við börn og hjálpa þeim þannig tilfinningalega. Það þarf að tala við þau, gefa þeim tíma í spjall um hitt og þetta, horfa í augun þeirra, setjast niður með þeim og hafa bara kósí og skemmtilegt. Það gengur ekki að þau séu endalaust í símanum eða í tölvunni og horfi meira á skjá en í augun á sínum nánustu, vinum og vandamönnum. Foreldrar sem eru meira uppteknir af símanum sínum, að glápa á Netflix eða hanga endalaust á FB eða einhverjum öðrum netmiðlum, þurfa virkilega að athuga sinn gang.

Það þarf að virkja börn í að gera eitthvað skemmtilegt og börn þurfa að stunda útiveru, vera í samskiptum við vini og vandamenn, án netsins, og þjálfa þannig félagsleg samskipti og tengsl.

Það er hins vegar hauga lygi að flest öll börn og ungmenni séu að horfa á klám og hafi gert það. Samt á kynfræðslan að taka mið af því að þau séu upplýst um klámheiminn.

Það er sem betur fer ennþá til foreldrar sem passa upp á hvað börnin þeirra eru að horfa á á netinu og hvaða upplýsingar þau fá. Vita það að þau þurfa allt í smáskömmtum. Þau vita það líka að börn melta upplýsingar smátt og smátt og það rennur upp fyrir þeim ljós smátt og smátt varðandi hin ýmsu mál. Börn hafa innri heim eins og við fullorðna fólkið. Þau eru ekki vélmenni sem þarf að mata út í eitt.

Nú er svo komið að foreldrar og aðstandendur barna sem vilja breytingar og vilja ekki að börn verði tengd svona við klám heiminn, efni sem er stranglega bannað þeim n.b. eru að rísa upp og mótmæla. En þau hafa hreinlega verið skotin niður af allskonar aktívistum og af fólki sem þykist vera að vernda börnin, og virðast konur þar vera í stórum hluta, sem er hreint ótrúlegt. Hvað gerðist eiginlega?

Það er talað um nýjan raunveruleika barna og raunveruleikinn er klámheimurinn. Klámheimurinn er búinn til af fullorðnu fólki og hann er ekki fyrir börn. Aðgengi að honum hefur næstum verið gert frjálst.

Af hverju eru svona örfáir að tala um forvarnir? Það er hægt að laga þetta. Af hverju eru þið sum svona blind og köld? og skítsama? Ég stend með foreldrum og velunnurum barna. Ég stend ekki með þessari ógn sem er verið að leiða börn inn í og börn eru leidd inn í. Og það verndar ekki börn gegn barnaníðingum að læra um þessi mál á þann hátt sem stendur til að kenna þeim núna. Og munið það að börn leika eftir það sem þau sjá og þeim er innrætt. Þau gætu auðveldlega farið að leika eftir eitthvað af þessum grófu myndum sem fyrirfinnast í klámbókunum þeirra. Valdið sjálfum sér og öðrum skaða með því. Það eru þegar komin dæmi.

Börn og ungmenni leika ýmislegt eftir sem þau sjá, það er liður í því að þroskast. Þegar hljómsveitin Hatari var vinsæl, fóru krakkar að vilja fara í búninga eins og hljómsveitarmeðlimir. Þau voru að skemmta sér við það, fannst þessir búningar flottir og tónlistin. Þau voru ekki að pæla í B D S M. Þegar börn og ungmenni klæða sig í búninga eru það oftast búningsins vegna og oft kemur tónlist þar inn í og eða týpur í kvikmyndum.

FAÐMLAG TIL ALLRA SEM ÞEKKJA BÖRN OG ER ANNT UM VELFERÐ ÞEIRRA. Takið ykkur nú saman að rísið upp! Það veitir ekki af því að hafa þetta eitthvað skemmtilegra.


Drengurinn er hetja!

Mér finnst persónulega að strákurinn sem þessi ömurlegu karlar níddust á sé í raun sannur karlmaður og hetja.  Hann leggur í það að kæra þessa karla og fara í gegnum það ferli sem felst í því að kæra mál af þessu tagi og standa á sínu.  Það þarf dug til þess.  Hann er greinilega haldinn ríkri réttlætiskennd og er mikið í mun að honum sé trúað.  Vonandi líður honum betur eftir að dómur er fallinn í málinu. Það er ekki heiglum hent að berjast fyrir réttlæti. Hann er búinn að koma af stað umræðu og vitundarvakningu í þjóðfélaginu. 

Þótt ég trúi því ekki að svona níðingsskapur viðgangist á skipum almennt, þá veit ég að þetta er ekki eina tilfellið.  Ég veit um mann sem er á miðjum aldri í dag, sem varð fyrir hrottaskap í veiðiferð sem hann fór í kornungur, þar sem einhverjir skipsverjar sveifluðu honum yfir borðstokkinn á skipinu hvað eftir annað og héldu um fæturnar á honum. Eftir þessa hryllingsferð var hann í svo miklu áfalli að hann fór að stama og gerir enn í dag, að því er ég best veit.

Þegar maður les dóminn í málinu sem fjallað er um í fréttinni, sér maður að hátterni karlanna á skipinu myndi flokkast undir perraskap eins og það er kallað á góðri íslensku.  Ef maður viðhefði þessa tilburði á almannafæri og væri að áreita börn með því að bera sig m.a. fengi hann þyngri dóm.  Það vegur kannski þyngra ef slíkir atburðir eiga sér stað á fastlendi heldur en til sjós.

Ég óska drengnum og fjölskyldu hans alls hins besta.  


mbl.is Níddust á 13 ára dreng í veiðiferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mega strákar ekki vera með bleikar regnhlífar?

Ekki alls fyrir löngu var ég stödd á útihátíð og stóð þar í sölutjaldi við borð sem seldi allskonar dót fyrir krakka.  Lítill gutti með snuð, svona 2ja ára, lallaði sér að borðinu og horfði þar með aðdáun á ofboðslega fallegar og krúttlegar bleikar regnhlífar fyrir "krakka" sem voru til sölu.  Hann kallaði á mömmu sína, sem var þarna rétt hjá og benti á bleiku regnhlífarnar og sagði:

- Langa fá sona! 

Mamma hans þreif hann upp og sagði með hálfgerðum snúð: 

- Þú færð ekki "bleika" regnhlíf!

Svo snéri hún sér frá borðinu, en litli drengurinn horfði ennþá með aðdáun yfir öxlina á henni á bleiku regnhlífarnar og eins lengi og hann gat á meðan mamma hans gekk með hann í burtu.


Veskið sem ekki var stolið

Það er talsvert í umræðunni hér á landi að mikið af þeim útlendingum sem koma til landsins séu meira og minna þjófar og að erlend þjófagengi vaði hér uppi.   Ég er nú samt ekki viss um hvort að íslendingur hefði endilega sýnt af sér eins mikinn heiðarleika og ung erlend kona sýndi í dag.

Ekki löngu eftir að ég kom heim seinnipartinn, var dyrabjöllunni hringt.  Fyrir utan stóð ung ljóshærð kona.  Hún spurði mig á bjagaðri íslensku með pólskum hreim, hvort ég héti Margrét Hafsteinsdóttir.  Þegar ég játti því hálf hikandi, því ég vissi ekki hvað hún vildi, spurði hún mig hvort ég ætti ekki peningaveskið sem hún hélt á og sýndi mér. Hún sagðist hafa fundið það fyrir utan blokkina á bílastæðinu.  Ég sá að þetta var mitt veski og varð mjög undrandi, því ég var ekki farin að fatta það að ég hefði misst veskið á leiðinni inn. Ég þakkaði ungu konunni að sjálfsögðu kærlega fyrir og vildi endilega fá að borga henni fundarlaun, því það voru peningar í veskinu sem ekkert hafði verið snert á og allt á sínum stað.  Unga konan harðneitaði fundarlaunum, brosti bara og ætlaði að ganga í burtu, en þá gekk ég til hennar og knúsaði hana.

Mér skildist á henni, þegar hún var að reyna að útskýra fyrir mér hvar hún hefði fundið veskið að hún byggi í götunni, og nú verð ég að reyna að hafa upp á henni, svo ég geti fært henni blóm eða konfekt.  Því hún var flogin, vinkandi með bros á vör áður en mér tókst að spyrja hana.

Svo gott að finna fyrir heilindum og heiðarleika þessa dagana.


Af hverju stelur fólk?

Ég fer ekki ofan af því að þjófnaðir hafa aukist til muna á Íslandi undanfarin ár.  Ég bý sem dæmi rétt hjá verslunarmiðstöð og veit fyrir víst að þjófnaðir þar hafa aukist.  Afgreiðslufólk þarf að vera vel á varðbergi í verslunum, þegar hópar koma saman og reynt er að draga athygli afgreiðslufólksins frá hluta af hópnum á meðan hann ruplar og rænir.  Mér skilst að fólk sé ansi djarft í þjófnuðunum.  Mér skilst líka að verslunareigendur nenni stundum ekki að standa í því að tilkynna þjófnaði, þar sem það sé undantekning að þeir upplýsist. 

Mér finnst líka grátlegt þegar fólk situr á kaffihúsi, bregður sér frá örfá skref til að fá sér ábót á kaffið og á meðan er kápunni stolið sem sett hefur verið yfir bakið á stólnum.  Mér finnst líka grátlegt þegar fígúrur í görðum fólks fá ekki að vera í friði fyrir þjófum.  

Það virðist vera þjófnaðarfaraldur á landinu.  Ekki kannski skrítið, þegar hér hafa verið framin bankarán fyrir augunum á okkur og enn situr enginn í fangelsi vegna þess.  Aftur á móti veit ég um mann sem fékk dóm fyrir að stela ostatertu úr verslun fyrir örfáum árum. 

Hvað fær fólk eiginlega til að stela?   Mér finnst þjófnaðir ömurlegir og að svo margir sjái hjá sér þörf til að stela frá náunga sínum án þess að blikna.  Hvernig réttlætir fólk þjófnaði?  Stundum eru þjófar fólk sem manni finnst alls ekki líklegt til að stunda þá iðju.  En persónulega hef ég lent í því að gestir á mínu heimili hafa stolið frá mér, sem dæmi snyrtivörum.  Einu sinni stal ákveðin manneskja frá mér maskara, sem ég var nýbúin að kaupa.  Maskarinn var dýr og ég var mjög svekkt þegar honum var stolið.  Ekki löngu seinna kom ég á heimili manneskjunnar sem hafði stoli maskaranum og lá hann þá á borði hjá henni innan um aðrar snyrtivörur.  Ég tók ekki maskarann og sé eftir því enn í dag, því þessi manneskja átti eftir að stela fleiru frá mér.

Yngri sonur minn lenti í því í Laugum að skónum hans var stolið.  Flottum adidas skóm.  Þeir hurfu þegar hann fór í sturtu.  Hann hafði sett þá undir skápinn.  Sá þjófur var tekinn, talsvert seinna.  Hann náðist á myndavél sem var sett upp í fataklefunum ýmsum til hrellingar, en gott á þjófinn.

Slæmt þykir mér þegar fólk stelur úr þvottavélum og þurrkurum í sameignum húsfélaga.  Hvað hefur fólk að gera við nærfatnað annarra?  Vinkona mín lenti í því að fullum þurrkara af nærfatnaði hennar, náttfötum og einhverju af handklæðum var stolið.  Þetta var þvílíkt áfall fyrir hana að hún var lengi að jafna sig, enda var hún ekki vel stæð og gat ekki keypt þetta allt upp á nýtt.  Sá þjófur náðist aldrei.

Ég hef lent í þvi að handklæðum hefur verið stolið frá mér af snúru í sameign.  Síðan hef ég verið með þvottavél og þurrkara inni hjá mér og snúrur á svölunum.  

Það er oft talað um það að þjófnaður sé mismikill eftir löndum.  Erum við íslendingar í hópi þeirra landa þar sem mikið er um þjófnaði? Kannski þjófnaði sem aldrei eru tilkynntir?


mbl.is Sagðist vera að gera við tölvuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynferðisáreiti er óþolandi!

Mikið er ég fegin að konur hafa risið upp gegn kynferðisáreiti, þótt sumum þyki nóg um.  Svona áreiti er afskaplega niðurlægjandi og leiðinlegt.  Ég hef sjálf lent í þannig áreiti oft og mörgum sinnum í gegnum árin.   Mér finnst bara frábært og  í góðu lagi að konur kæri slík mál og að í dag hafi þær tækifæri til þess, enda óþolandi að verða fyrir svona dónaskap og kúgandi aðstæðum.

Þegar ég var á 15. ári var ég að vinna í bakaríi að sumri til.  Þar vorum við stelpurnar sem þar unnum fyrir miklu áreiti af hálfu eins bakarans, sem var eldri maður.  Hann bókstaflega káfaði á okkur þegar honum sýndist svo.  Hann varð þó fljótur til að láta mig í friði, af því ég sló hann utan undir einu sinni.  Ef þetta væri í dag, myndi maðurinn verða kærður.

Ég man líka eftir lögfræðingi á einum vinnustað, sem stundaði það að króa okkur tvær stúlkur af, og reyna að káfa á okkur og kyssa, giftur maðurinn.  

Svo þótti líka mjög skemmtilegt af nokkrum starfsmönnum í sláturhúsinu, þar sem ég vann í haustslátrun að æða með lúkurnar á milli fótanna á okkur stelpunum, þegar við vorum önnum kafnar í vinnu og/eða káfa á brjóstunum á okkur.  Eitt skipti man ég eftir því að ég snéri mér snöggt við þegar maður káfaði á mér þar sem ég var að vinna við að hreinsa garnir og var með sloruga hanska á höndunum, og gaf honum einn góðan utan undir, svo slorið lak af fésinu á honum.

Versta sem ég hef lent í var af hálfu læknis, sem kom í sjúkravitjun heim til mín, þegar ég fékk svo alvarlega í bakið að ég gat varla hreyft mig.  Hann lét mig standa upp við borð sem ég studdi mig við svo ég snéri baki að honum.  Hann skoðaði á mér bakið og svo kippti hann niður um mig nærbuxunum, horfði á rassinn á mér, sem var alveg óþarfi af því mér var ekki illt í rassinum.  Ég reyndi í vanmætti mínum að snúa mér við og reyndi að kippa aftur upp nærbuxunum, en þá dró hann þær aftur upp og lét smella í teygjunni.  Hann var glottandi á svip þegar mér tókst að líta framan í hann og mér leið ömurlega, þarna næstum ósjálfbjarga, ein heima og upplifði þrúgandi ástand.   Læknirinn sagði mér síðan bara að taka verkjatöflur og gerði ekkert, enda sagði hann að ekkert væri hægt að gera, nema að liggja og láta þetta lagast og taka verkjatöflur, þar sem þetta væri slæmt þursabit. Reyndar var ég með brjósklos og endaði í skurðaðgerð vegna þess.

Ég lenti líka einu sinni í leigusala, sem varð ákaflega hrifinn af mér, giftur maður að sjálfsögðu.  Hann beinlínis lagði mig í einelti, var alltaf að hringja í mig á kvöldin, bjóðandi mér til Spánar og út að borða, sem ég þáði að sjálfsögðu ekki.  Svo kom hann oft þar sem ég var að vinna, en hann átti það húsnæði og var sífelt að daðra við mig og reyna við mig þótt ég væri í sífellu að neita honum.  Óþolandi!

Þetta er bara brot af því sem ég hef lent í hvað varðar kynferðisáreiti.  Ég hef líka lent í nauðgunartilraun og líkamsárás af hálfu karlmanns sem ég vildi ekki þýðast.  Ég kærði hann og vann málið!!

Já stelpur, ég skil ykkur sem verða fyrir kynferðisáreiti og stend með ykkur í baráttunni.  


mbl.is Saka fyrrum forstjóra um kynferðisáreitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar lífsreglur

Ellefu lífsreglur Bill Gates


Bill Gates, forstjóri tölvurisans Microsoft, hélt eitt sinn fyrirlestur fyrir unglinga í gagnfræðaskóla í Bandaríkjunum.
Þar talaði hann um reglurnar ellefu sem þau myndu aldrei læra á skólagöngu sinni en þyrftu nauðsynlega að kunna til að komast af í lífinu.

 

1. Lífið er ekki réttlátt, reyndu að venjast því.


2. Veröldinni er sama um þitt sjálfsálit. Allir ætlast til að þú áorkir einhverju áður er þú ferð að vera ánægður með sjálfan(n) þig.


3. Þú munt ekki þéna fjórar milljónir á ári strax þegar þú útskrifast úr skóla og þú verður ekki framkvæmdastjóri fyrr en þú hefur   unnið fyrir því.


4. Ef þér finnst kennarinn þinn strangur og erfiður, bíddu þangað til þú færð yfirmann.


5. Að snúa hamborgurum á skyndibitastað er ekki fyrir neðan þína virðingu. Amma þín og afi áttu til annað orð yfir það að snúa hamborgurum, þau kölluðu það TÆKIFÆRI.


6. Ef þú klúðrar einhverju, þá er það ekki foreldrum þínum að kenna, "hættu þessu væli og lærðu af mistökunum".


7. Áður er þú fæddist voru foreldrar þínir ekki svona leiðinlegir eins og þeir eru núna. Þeir urðu svona eftir að hafa borgað fyrir uppeldið þitt, þvegið fötin þín, þrifið til draslið eftir þig og hlustað á hvað þú ert cool og hallærisleg/ur. Svo áður en þú og vinir þínir bjargið regnskógunum og leysið heimsmálin, reyndu þá að taka til og koma reglu á herbergið þitt.


8. Það getur vel verið að skólinn útskrifi bæði sigurvegara og tapara en lífið gerir það ekki. Í sumum skólum er hægt að taka sama prófið aftur og aftur, þannig er þetta ekki í atvinnulífinu.


9. Lífið skiptist ekki í annir og þú munt ekki hafa frí öll sumur. Mjög fáir samstarfsmenn munu hafa áhuga á að hjálpa þér að finna sjálfan(n) þig. Gerðu það í þínum eigin tíma.


10. Sjónvarpið er ekki raunveruleikinn. Í raunveruleikanum þarf fólk í alvörunni að yfirgefa kaffihúsið og fara í vinnuna.


11. Vertu vingjarnleg(ur) við nördana í skólanum, það endar mjög líklega með því að þú þarft að vinna hjá einhverjum þeirra.



Kveðja, Bill Gates, nörd í skóla...

Óska öllum bloggurum og gestum hér gleðilegra jóla

Óska öllum bloggurum hér
gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
 
Vonandi fer að landið og landar þess
að rísa upp til betra lífs fyrir alla.
 
Eigið þið yndislegan tíma.
 
homestead_winter.jpg
 
 

Að nefna barn eftir bíl

Þetta var ansi sniðugt hjá bresku hjónunum að nefna dóttur sína eftir bílnum sem hún fæddist í.  Kia er ekki svo slæmt nafn.  Og fá svo nýjan bíl frá bílaframleiðandanum svona óvænt.  Þetta er góð hugmynd fyrir ófrískar konur í kreppunni ef þær vantar bíl að reyna að fæða barnið í aftursætinu á flottum bíl og ekki svo slæmt ef það væri strákur sem fæddist í Lexus.

Í mínum bíl væri hægt að nefna bæða strák og stelpu sem fæddust í honum, þ.e. Nissan og Míkra Grin


mbl.is Nefndu barnið eftir bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýfædd börn

Það vita það allir foreldrar hversu mikill munur er á nýfæddum börnum þegar litið er á þyngd þeirra og lengd.  Þessi "litli" hlunkur frá Indónesíu hlýtur að vera ótrúlegur að sjá.  Við vitum að það er talsverður mundur á nýfæddum börnum þegar þau eru 12 merkur eða 16 merkur að þyngd, hvað þá 35 merkur.  Mér fannst nóg að burðast með mína syni, 14 og 15 merkur. 

lanfredij-0011-001_hres.jpg

 

Þegar yngri sonur minn fæddist, 15 merkur og 50 cm, stuttur og digur InLove með kolsvartan hárlubba, þá var konan í næsta rúmi með son sem var 18 merkur og 56 cm og það var hreint ótrúlega mikill munur á þessum tveim, þótt það munaði ekki nema 750 gr. á þyngdinni og 6 cm á lengdinni. Eldri sonur minn var 14 og hálf mörk og 52 cm og þótti frekar grannur.  Stuttu áður en ég eignaðist hann fæddi frænka mín son sem var 20 merkur og 59 cm!   Hann var ótrúlega stór og mikill miðað við önnur nýfædd börn.

En ég væri til í að halda á krúttinu frá Indónesíu Heart Gaman að velta þessu fyrir sér.

 


mbl.is Risabarn vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband