Af hverju stelur fólk?

Ég fer ekki ofan af því að þjófnaðir hafa aukist til muna á Íslandi undanfarin ár.  Ég bý sem dæmi rétt hjá verslunarmiðstöð og veit fyrir víst að þjófnaðir þar hafa aukist.  Afgreiðslufólk þarf að vera vel á varðbergi í verslunum, þegar hópar koma saman og reynt er að draga athygli afgreiðslufólksins frá hluta af hópnum á meðan hann ruplar og rænir.  Mér skilst að fólk sé ansi djarft í þjófnuðunum.  Mér skilst líka að verslunareigendur nenni stundum ekki að standa í því að tilkynna þjófnaði, þar sem það sé undantekning að þeir upplýsist. 

Mér finnst líka grátlegt þegar fólk situr á kaffihúsi, bregður sér frá örfá skref til að fá sér ábót á kaffið og á meðan er kápunni stolið sem sett hefur verið yfir bakið á stólnum.  Mér finnst líka grátlegt þegar fígúrur í görðum fólks fá ekki að vera í friði fyrir þjófum.  

Það virðist vera þjófnaðarfaraldur á landinu.  Ekki kannski skrítið, þegar hér hafa verið framin bankarán fyrir augunum á okkur og enn situr enginn í fangelsi vegna þess.  Aftur á móti veit ég um mann sem fékk dóm fyrir að stela ostatertu úr verslun fyrir örfáum árum. 

Hvað fær fólk eiginlega til að stela?   Mér finnst þjófnaðir ömurlegir og að svo margir sjái hjá sér þörf til að stela frá náunga sínum án þess að blikna.  Hvernig réttlætir fólk þjófnaði?  Stundum eru þjófar fólk sem manni finnst alls ekki líklegt til að stunda þá iðju.  En persónulega hef ég lent í því að gestir á mínu heimili hafa stolið frá mér, sem dæmi snyrtivörum.  Einu sinni stal ákveðin manneskja frá mér maskara, sem ég var nýbúin að kaupa.  Maskarinn var dýr og ég var mjög svekkt þegar honum var stolið.  Ekki löngu seinna kom ég á heimili manneskjunnar sem hafði stoli maskaranum og lá hann þá á borði hjá henni innan um aðrar snyrtivörur.  Ég tók ekki maskarann og sé eftir því enn í dag, því þessi manneskja átti eftir að stela fleiru frá mér.

Yngri sonur minn lenti í því í Laugum að skónum hans var stolið.  Flottum adidas skóm.  Þeir hurfu þegar hann fór í sturtu.  Hann hafði sett þá undir skápinn.  Sá þjófur var tekinn, talsvert seinna.  Hann náðist á myndavél sem var sett upp í fataklefunum ýmsum til hrellingar, en gott á þjófinn.

Slæmt þykir mér þegar fólk stelur úr þvottavélum og þurrkurum í sameignum húsfélaga.  Hvað hefur fólk að gera við nærfatnað annarra?  Vinkona mín lenti í því að fullum þurrkara af nærfatnaði hennar, náttfötum og einhverju af handklæðum var stolið.  Þetta var þvílíkt áfall fyrir hana að hún var lengi að jafna sig, enda var hún ekki vel stæð og gat ekki keypt þetta allt upp á nýtt.  Sá þjófur náðist aldrei.

Ég hef lent í þvi að handklæðum hefur verið stolið frá mér af snúru í sameign.  Síðan hef ég verið með þvottavél og þurrkara inni hjá mér og snúrur á svölunum.  

Það er oft talað um það að þjófnaður sé mismikill eftir löndum.  Erum við íslendingar í hópi þeirra landa þar sem mikið er um þjófnaði? Kannski þjófnaði sem aldrei eru tilkynntir?


mbl.is Sagðist vera að gera við tölvuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Úps .. eru myndavélar í búningsklefunum í Laugum? Fólk stelur eflaust af misjöfnum ástæðum, sumir vegna þess að þeir hreinlega þurfa að bjarga sér og kunna enga aðra aðferð. Aðrir af græðgi - og enn aðrir fyrir kikkið.

Sumum er nákvæmlega ekkert heilagt.

Það er hægt að stela bæði hlutum og svo auðvitað hægt að stela á huglægan hátt - og við þurfum víst ekki að fara út í þá umræðu hér.

Jóhanna Magnúsdóttir, 30.8.2010 kl. 23:03

2 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Nei það eru ekki myndavélar í búningsklefunum í Laugum. Þær voru settar upp tímabundið í karlaklefunum vegna þjófnaðar.   Það varð mjög umdeilt á sínum tíma en þjófurinn náðist

Margrét St Hafsteinsdóttir, 31.8.2010 kl. 00:58

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég held að þetta eigi ýmsar ástæður Margrét mín.  Fyrst er það neyðin, fólk hefur ekki milli handa eins og áður, og freistingar eru víða.  en það er líka meira, reiðin út í samfélagið, stjórnvöld og þá sem hafa það betra.  Það er hættulegast.   Svo getur líka verið að með auknum innflutningi fólks frá fátækari löndum, þar sem þjófnaður er ef til vill algengara en hefur verið hér.  Ástandið á Íslandi er brothætt þessa dagana.  Og eins gott að gæta vel að sínum eignum.  Hér eru hreinlega heilu mafíurnar sem gera út á þjófnaði, síðan er góssið sett í gám og flutt út.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.8.2010 kl. 10:23

4 Smámynd: Guðný Einarsdóttir

Og sumir stela bara til að stela þó þeir þurfi ekkert á því að halda,veit um svoleiðis lið...

Kveðja á þig frænka

Guðný Einarsdóttir, 31.8.2010 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband