Hverjir eru þessir lítilmagnar og þeir sem minna mega sín?

Ég beinlínis þoli ekki þessar útlistanir á fólki frá öðru fólki sem telur sig hafa meira "vald" en aðrir eða hefur tekið sér það.

Þegar fólk er að tala um að gera eitthvað fyrir þá sem "minna mega sín" og að styðja "lítilmagnann" er það í rauninni að tala niður til fólks og gera lítið úr því.  Sá sem minna má sín er valdalítill og sá sem er lítilmagni er það líka.  Það er merking orðanna.  Mér finnst þetta bara niðurlægjandi tal um fólk sem hefur kannski ekki gert neitt af sér annað en það að veikjast eða vera veikt frá fæðingu svo dæmi séu tekin.  Þetta er líka sagt um fólk sem er að basla og er launalágt og hefur ekki aðgang að meiri launum vegna þess að vinna þeirra er illa metin.

Þetta er bara hroki og ekkert annað!

Það er mjög gott að sveipa sig einhverri skykkju góðmennsku og æða um í staurblindni og finnast maður verðskulda meiri auð og völd heldur en aðrir sem berjast í bökkum og taka sér svo það vald að þú sért yfir aðra hafinn og verðskuldir meira þegar þú átt miklu meira en nóg fyrir þig og þína. Það er ömurlegt til þess að hugsa að "ölmusuhugsunin" skuli vera svona hátt skrifuð hjá kristlingum þessarar þjóðar sem m.a. halda tónleika "fyrir þá sem minna mega sín" og með því staðfesta "valdaleysi" þeirra sem hafa troðist undir hér í samfélaginu.

Það er ömurlegt að hlusta á presta flytja ræður með helgislepjutón í röddinni, og segja .........þá sem minna mega sín.........og bla bla bla............ og auglýsa svo matargjafir handa þeim sem þurfa á því að halda.

Það er ömurlegt að fólki skuli vera boðið yfirhöfuð upp á það að standa í biðröðum eftir mat og fatnaði og það skuli þykja bara næstum sjálfsagt og að það skuli hálfpartinn vera sveipað einhverri "helgi" og þykja svo gott að geta gefið fólki eitthvað á þennan hátt......Ömurlegt! Það er svo gott að vera í þeirri aðstöðu að geta fundið fyrir valdi sínu og geta verið þess umkominn að henda svona eins og einum þúsundkalli í allar þessar svokölluðu "hjálparstarfsemi" hér sem býður fólki að niðurlægja sig með því að standa í biðröðum.

Staðreyndin er að það er enginn einn meiri en annar.  Það vald sem fólk tekur sér til að ráðskast með líf annarra, viðhalda fátækt, troða á öðrum og niðurlægja fólk með því að kalla það og líta á það sem einhvers konar undirmálsfólk, er bara vald sem fellur um sjálft sig vegna þess að þetta er ekkert annað en sýking hugans sem veldur þessum valdasjúkdómi og hefur fengið tengingu við peninga.

Það fólk sem telur sig meira en aðrir og viðheldur fátækt og leyfir ekki fólki að halda mannlegri reisn sama hvað á gengur og í krafti auðæfa sinna telur sig yfir aðra hafið, er það fólk sem er veikast af öllum.  Það fólk sem þarf að finna fyrir einhvers konar valdi er í raun mjög veiklundað.

Svo heldur fólk að það geti friðað sjálft sig með því að henda brauðmolum í aðra og lifa svo áfram í blekkingum með egóið í botni.  Svo fyrirlítur það í raun þá sem það þykist vera að hjálpa.

Ölmusu hugsunin er mörgum hjartkær.  Þess vegna er fátækt og mismunun til yfirhöfðuð.  Það er troðið á fólki og það beitt óréttlæti vegna þess að einhverjum finnst það sjálfsagt.  Þess vegna heldur þetta áfram og fólk verður undir, þar til hugsun annarra verður kærleiksríkari og jöfnuður næst.  Jöfnuður er það eina sem gengur til að samfélög blómstri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl; frænka !

Rétt; mælir þú, sem oftar og fyrri.

Með beztu kveðjum /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 20:58

2 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Þessi pistill þinn er með miklum ólíkindum og þú hefur uppi stór orð gegn því góða fólki sem vill láta gott af sér leiða. Þú ert sem sagt á móti því að fátæki og heimilislausu fólki sé hjálpað. Það er ekki "hugarástand" að fólk á bágt og það verður ekki lagað með "hugarástandi". Ég tek samt undir með þér að meira réttlæti er nauðsynlegt og þar koma stjórnvöld til skjalanna sem gera mættu meira. Núna er t.d. vinstri stjórn sem talar við jafnrétti og jöfnuði. Hefur eitthvað lagast við þessa stjórn? Þú ert hér að gera afar lítið úr fólk sem oftar en ekki er í sjálfboðastarfi að rétta öðrum hjálparhönd sem minna mega sín. Nefna mætti Rauða Krossinn, Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar o.fl. Hafðu bágt fyrir það. Ég þakka Guði fyrir að það er enn til fólk hér á landi sem vill hjálpa öðrum í neyð í staðinn fyrir þá sem tala (en bara tala) um jöfnuð og siðgæði en virðast hafa lítið af því sjálft. Kveðja, "Kristlingur".

Guðmundur St Ragnarsson, 2.1.2010 kl. 22:07

3 identicon

Gleðilegt ár Maggadóra ,þetta er eins og talað frá mínu hjarta,og því miður er þetta staðreynd .

Þegar ég er að tala við fólk sem á skítnóg af peningum af því að það var svo heppið að þekkja rétta liðið og tapaði þar af leiðandi engu heldur stórgræddi á gengisfellingunni með því að kaupa gjaldeyri fara með hann út og selja evruna á 300 kall ,þá akkúrat er þetta viðhorfið ,við sem töpuðum kannski öllu sem við áttum erum atvinnulaus erum bara aumingjar sem þarf að hjálpa.

Og fólkið sem mætti á BESSASTAÐI í morgun eitthvað á annað þúsund á heiður skilið bara fyrir að mæta og standa vörð um réttlætið það voru sko engir aumingjar ,aftur á móti þeir sem ekki mættu og gagnrýndu okkur skuldrana fyrir aumingjaskapinn og það væri bara okkur að kenna hvernig komið væri fyrir þjóðinni þeir eru bara skítapakk og ættu að skammast sín fyrir hrokann.

En við skulum ekki hafa of miklar áhyggjur af þessu pakki það drukknar úr skítnum úr sjálfum sér fyrir rest.

Og ekki eru kirkjunnar menn betri tóku meira að segja þátt í bullinu með útrásarpakkinu,ekki hjálpa þeir þeim sem á þurfa að halda ,aftur á móti er til fólk sem er tilbúið að hlaupa til og aðstoða fólk í neyð ,við Íslendingar erum einstakir í þesskonar málum sem betur fer .

En því miður er alltaf til fólk sem þarf aðstoð einhverra hluta vegna og við heilbrigt fólk eigum að sjá sóma okkar í að aðstoða þetta fólk og ekki fara frammá neitt í staðinn ,sá sem gefur af sér án þess að vita af því er góður maður .

Það sem skítapakkið þarf að gera áður en það drukknar er að ganga eina mílu í skó náungans áður en það dæmir hann.

Nú er komið nítt ár og þá er að gera það gott ár með samstöðu um að rétta landið við ,saman getum við það sundruð ekki .

Sem betur fer er til meira af góðu fólki en vondu og hefur alltaf verið ,leifum pakkinu að blása það hefur eingin áhrif til lengri tíma ,stöndum vörð umvelferðina og hlúum að sjúkum og öldruðum ,þeir eiga það inni hjá okkur.

Verð að láta eina fylgja með um stjórnvöld:

Með þeim úldna þingmannsher

fólkið stjórnvöld smána ,

hæstaréttarrakkerner,

rífa stjórnarskrána.

MbkDON PETRO

H Pétur Jónsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 22:15

4 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Guðmundur:   Það á að taka orðið "hjálp" út úr öllu þessa meinta hjálpræði og setja orðið "skylda" í staðinn.  Þú skilur ekki hvað ég er að fara, enda ertu greinilega ofur kistlingur   Hugarástand þeirra sem eru að "hjálpa" og telja sig fá gott í kroppinn fyrir það eða í sálina frá einhverjum meintum altumvitandiguði, er það sem þarf að breyta hugarástandi hjá og svo hjá þeim sem hafa peningavald og líta niður á náungann vegna aðstæðna sem hann er í af einhverjum sökum.

Mér finnst öllu svona hjálparstarfi vera meira og minna viðhaldið til þess að friða einhverja sem finnst nauðsynlegt að hafa svona batteri til að friða sjálfa sig með sína velmegun.

Að sjálfsögðu á að aðstoða fólk þegar það lendir í erfiðleikum, en það á að ala það upp í okkur að það sé skylda okkar en ekki einhver ölmusa og láta svo fólk upplifa það að það sé undir hælnum á einhverjum meintum "valdhöfum".  Ömurlegt!

I þessu smávaxna samfélagi á fólk ekki að þurfa að betla eða standa í biðröðum eftir mat. Og það er staðreynd að fólk sem lendir í erfiðleikum hér s.s. veikindum sem leiða til örorku verður fyrir mikilli fyrirlitningu í samfélaginu og það má líka sjá af þeim ömurlegu smánarlegu bótum sem það fær til að lifa af og á að vera þakklátt fyrir.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 3.1.2010 kl. 00:26

5 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Óskar Helgi:  Takk og gleðilegt ár!

H.Pétur Jónsson:  Flott innlegg hjá þér og ég tek undir flest sem þú segir.  Hvernig heldurðu að ástandið sé hér hjá fólki sem er að berjast við veikindi og er á skammarbótum?

Margrét St Hafsteinsdóttir, 3.1.2010 kl. 00:29

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Margt gott í þessum pistli þínum Margrét mín eins og þín er von og vísa.  Vissulega eru margir sem þurfa á hjálp að halda.  En það er ekki sama hvernig það er gert og með hvaða hugafari.   Og mikið er það rétt að hér þarf að stuðla að meiri jöfnuði og réttlæti.  Það ætti að vera okkar forgangsverkefni.  Því miður bólar ekkert á því hjá þessari sjálfkölluðu Velferðarstjórn.  Það þarf því eitthvað meira til.  Gleðilegt ár og megi nýja árið vera þér og þínum gleðilegt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2010 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband